08.07.2013 09:20

50 ára afmæli Hestamannafélagsins Kóps!

Kæru Kópsfélagar.

30. Júní 1963, var stofnfundur Hestamannafélagsins Kóps haldinn í félagsheimilinu á Kirkjubæjarklaustri. Félagið okkar varð því 50 ára þann 30. júní 2013.

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!

Við fögnum þessum tímamótum með veglegu afmælismóti 27 og 28 júlí n.k. og síðan húllum hæi einhverntíma á komandi hausti.

Með kærri kveðju.

Stjórnin.

 

Til gamans fylgir hér  fundargerð stofnfundarins.

 

Sunnudaginn 30. Júní 1963 var haldinn stofnfundur að hestamannafélagi í félagsheimilinu á Kirkjubæjarklaustri. Mættir voru 24 fundarmenn.

Séra Gísli setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega Bjarna á Laugarvatni er mættur var á fundinn.Síðan var séra Gísli kosinn fundarstjóri með lófaklappi.

Skipaði hann Helga í Hraunkoti fundarritara og las hann einnig upp fundargjörð fundar sem haldinn var  1.des. 1962 og var hún samþykkt.

Fundarstjóri gerði fyrirspurn til nefndarmanna sem kosnir voru á fundinum í vetur og mættir voru á þessum fundi, hver áhugi væri um stofnun Hestamannafélags. Töldu þeir að þó nokkur þátttaka myndi verða ef félag yrði stofnað. Þá tók til máls Bjarni á Laugarvatni. Lýsti hann starfsemi hestamannafélaga t.d. starfsemi  síns félags er heitir Trausti.Hvatti hann eindregið til að stofna hestamannafélag á þessum fundi þó fámennur væri og kjósa bráðabyrgðarstjórn.Fleiri tóku til máls og tjáðu sig fylgjandi tillögu Bjarna.

Var síðan samþykkt að stofna Hestamannafélag. Samþykkt var einróma tillaga frá Bjarna Bjarnasyni í Þykkvabæ að félagið héti Kópur.

Þá kom fram listi fyrir fundarmenn til að skrá sig í félagið og gerðust 19 manns  félagar á fundinum.

Samþykkt var að árgjöld félaga væri 100kr. Síðan var kosið í stjórn félagsins og voru þessir menn kosnir.

Sigurgeir Jóhannsson Bakkakoti með 17 atkvæðum.

Bjarni Bjarnason Þykkvabæ með 13 atkvæðum.

Séra Gísli Brynjólfsson með 10 atkvæðum.

Til vara Helgi Sigurðsson Hraunkoti.

Þá var rætt um að félagið færi í útreiðartúr í sumar og var helst stungið uppá að fara inn í Holtsdal sunnudaginn 28. Júlí og stjórninni falið að sjá um frekari undirbúning.

Fleirra ekki rætt á fundinum.

En strax að fundinum loknum flutti Bjarni Bjarnason á Laugarvatni mjög fróðlegt erindi um hesta og hestamennsku.

 

Helgi Sigurðsson.

 

Tenglar

Flettingar í dag: 54
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 138
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 259865
Samtals gestir: 45623
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 05:55:25