11.03.2013 08:05

Skýrsla stjórnar árið 2012

Skýrsla stjórnar árið 2012.

 

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
 

Starfsemi félagsins árið 2012 var með nokkuð svipuðu sniði og undanfarin ár. Þó er alltaf, sem betur fer, eitthvað nýtt í félagsstarfinu og ýmislegt gert þegar litið er til baka.
 

Stjórnarfundir voru nokkrir á árinu og einn almennur félagsfundur. Aðalfundurinn var haldinn 2.mars og var mæting þokkaleg. Á fundinum var Jens Eiríkur Helgason bóndi í Hátúnum gerður að heiðursfélaga.
 

Æskulýðsstarfið hófst á árinu með verkefni í samstarfi við skólann. Helgarnámskeið fyrir 6-16 ára var haldið í mars og pizzupartýið var á sínum stað í apríl. Aðrir fastir liðir í æskulýðsstarfinu eru svo reiðskólinn í júní og þátttaka krakkanna í firmakeppni, félagsmóti og hestaferð. Ég ætla ekki að útlista nánar æskulýðsstarfið heldur vísa í Æskulýðsskýrslu Kóps árið 2012 sem þið hafið á borðunum hjá ykkur.Þar má sjá nánari samantekt á því sem gert var með krökkunum.
 

Folaldasýningin var haldin 11. febrúar þegar hálkan var á undanhaldi og fært var orðið með kerrur. Tókst hún í alla staði vel. Við ákváðum síðan á haustdögum að breyta dagsetningu folaldasýningar og hafa hana að hausti eða í byrjun vetrar. Það var því aftur blásið til sýningar á þessu ári, þann 10. nóv. Má segja að það hafi verið í orðsins fyllstu merkingu því svo hvasst var þann dag að fresta varð sýningunni til næsta dags. Þátttaka var góð, 18 folöld og 11 trippi.
 

Félagið stóð fyrir reiðnámskeiði í byrjun árs. Reiðkennari var Páll Bragi Hólmarsson.Þátttakendur voru tíu og eftir því sem ég best veit voru allir ánægðir að því loknu.

Stjórn sat USVS.þing og fulltrúar á L.H. þingi sem haldið var í Reykjavík voru Kristín og Brandur á Fljótum.
 

Félagið réðst í peysukaup á árinu. Tilgangurinn var tvíþættur, annarsvegar að fá flottar peysur á góðu verði fyrir félagsmenn og hinsvegar að græða peninga, því þrjú fyrirtæki keyptu auglýsingar á peysurnar. Fyrirtækin eru Hótel Klaustur, S.S. og Systrakaffi.  Fleira var gert í fjáröflunarskyni, svo sem haldið páskabingó í Tunguseli laugardaginn fyrir páska. Það var gríðarleg aðsókn svo spjöldin seldust upp og ekki voru til stólar fyrir allan þennan fjölda. Urðu því margir frá að hverfa og ætlum við að gera viðeigandi ráðstafanir fyrir næsta bingó.Einnig var blómasala fyrir páska og hvorutveggja skilaði félaginu góðum hagnaði.
 

Farið var í tvo útreiðartúra, sá fyrri var farinn um Landbrotshólana og endað í hesthúskaffi fyrir framan Skaftá. Í þeim síðari var safnast saman í vesturbænum á Herjólfsstöðum þar sem vel var tekið á móti okkur. Herjólfsstaðakonur, þær Steina, Harpa og Adda fóru með okkur í skemmtilegan reiðtúr um Verið í blíðskaparveðri.
 

Firmakeppnin var haldin í apríl og tók fjöldi fyrirtækja þátt. Kópur átti þrjá keppendur á landsmóti sem allir stóðu sig með prýði.  Við tókum einnig þátt í hópreiðinni á setningarhátíð mótsins. Mjög skemmtilegt verkefni, ekki síst undirbúningurinn.
 

Félagsmótið okkar var svo haldið í endaðan júlí. Mjög gott og skemmtilegt mót, fínn hestakostur og frábært veður. Í vikunni fyrir mót bauð Kristín Lár. uppá tilsögn í sýningarprógrammi.Mæltist það vel fyrir og nýttu sér það upprennandi knapar á öllum aldri. Á íþróttahátíð USVS. var svo keppt í hestaíþróttum í fyrsta sinn og vonandi verður framhald á því á komandi árum. Þar sér sambandið um að útvega dómara og ber félagið ekki kostnað af því.
 

Hestaferðin var farin í ágúst. Þetta árið var safnast saman í Álftaverinu. Gist í Herjólfsstaðaskóla, farið ríðandi á laugardeginum út í Skerjakofa. Það þurfti þó enginn að tefja sig á að dáðst að útsýninu, því myrkaþoka var svo varla sá aftasti knapi í þann fremsta. Engu að síður mjög skemmtileg ferð eins og svo oft áður. Til gamans langar mig að geta þess að í upphafi ferðar datt formaðurinn af baki og merkilegt nokk, hún slapp  við allar meinlegar athugasemdir alla ferðina. Sennilega hefur henni orðið það til happs að réttir menn voru ekki á réttum stað á réttum tíma. Á heimleiðinni heyrðist þó nefnt, hvernig stæði á þessari djúpu dæld í vegkantinum á vissum stað á leiðinni.
 

Félaginu var úthlutað reiðvegafé sem unnið var fyrir á árinu og heimasíðan okkar er vel virk, umsjónarmaður hennar er Þórunn Bjarnadóttir frá Fossi.Tveir félagsmenn fóru á námskeið í Kappa og Sport feng. Og núna er nýlokið reiðnámskeiði sem haldið var á Fljótum helgina 26-27.jan. Kennari var Páll Bragi. Það tókst með ágætum, þátttakendur voru tíu, ýmist reynslulitlir eða reynslumiklir en allir ánægðir með námskeiðið.
 

Á þessu ári er félagið okkar 50 ára. Það var stofnað 30.júní 1963. Munum  við væntanlega fagna þeim tímamótum með skemmtilegum og  eftirminnilegum hætti.
 

Af þessari upptalningu má sjá að ýmislegt hefur verið sér til gamans gert hjá félaginu en verkefnin eru ótrúlega mörg í kringum allt sem gert er. En ef allir leggjast á eitt og taka ekki stinnt upp þó þeim berist erindisbréf með tilkynningu um setu í nefnd, þá tekst okkur að efla starfsemi félagsins enn frekar.

Að lokum þakkir til allra velunnara félagsins, bæði fyrirtækja og einstaklinga sem styrktu félagið með ýmisskonar framlögum á árinu. Margt væri óframkvæmanlegt án þeirra stuðnings.

Ágætu félagsmenn og allir þeir sem unnið hafa fyrir félagið á árinu, hafið þökk fyrir ykkar óeigingjarna starf.
 

f.h. stjórnar Hmf. Kóps

Kristín Ásgeirsdóttir

Tenglar

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 152311
Samtals gestir: 25098
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 13:54:00